Menning

Veislunni er loksins lokið

Brugðið á leik á setrinu áður en allt fer til fjandans og óðalið er selt fyrir skuldum.Fréttablaðið/Pjetur
Brugðið á leik á setrinu áður en allt fer til fjandans og óðalið er selt fyrir skuldum.Fréttablaðið/Pjetur

Í kvöld frumsýnir Nemendaleikhúsið Kirsuberjagarðinn eftir Anton Tsjekhov á Litla sviði Borgarleikhússins.

Sýningin er hluti af lokaári árgangs í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

Nemendur takast þá á við heildstæð verkefni og hér er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekhov er samið 1904, á miklum umbrotatímum í Rússlandi þar sem undirliggjandi spenna milli þjóðfélagshópa er allsráðandi, samfélagsgerð sem ríkt hefur um aldir er að hverfa og ný að taka við. Nýríku auðmennirnir í Rússlandi náðu ekki að fara í útrás, landið var allt bundið í viðjar samfélagshátta lénskipulags. Landbúnaður var frumstæður og iðnaður var vanþróaður. Stjórnkerfi landsins var svifaseint og afturhaldssamt með yfirstétt studda aðli og kirkjuvaldi sem hélt öllu í helgreipum. Óþreyja var mikil í samfélaginu og sterkir kraftar tókust á. Um síðir var samfélaginu umbylt. Rússlandi var umbylt, kapítalisminn sigraði ekki, aðallinn sigraði ekki -fólkið sigraði ekki. Yfir samfélagið lagðist um síðir ógnarstjórn eftir hatramma borgarastyrjöld.

Í kynningu Nemendaleikhússins er verkinu líkt við hús sem er að hruni komið: „Eftir fimm ára fjarveru snýr Ljubov Ranjevskaja aftur heim. Býli hennar, víðfrægur kirsuberjagarður, er að verða gjaldþrota vegna mikilla skulda og það blasir við að innan skamms tíma verði það selt á uppboði. Ranjevskaja hefur eytt um efni fram, sóað gegndarlaust, án þess að leiða hugann nokkurn tímann að morgundeginum."

Hin víðfræga líking við kirsuberjagarðinn eins og heitið hefur verið þýtt á íslensku er ekki fullkomin: garðurinn inniber í íslensku lítið svæði, meðan kirsuberjaskógar á víðlendum jörðum rússneska landaðalsins voru gríðarleg flæmi sem voru nýtt bæði vegna berja og viðar. Í hugmyndaheimi þeirra landa sem búa við kirsuberjatré er tegundin ræktuð vegna berjanna, en blóminn er ekki síður táknlegur: eftir harða vetur ber kisruberjatréð skamma hríð snemma á vorin falleg blóm sem lita allt umhverfi sitt og eru sterkur boði um vor og sumar. Í verki Tsjekhov er líkingin um vorblómann samslungin lífsstíl sem er á hverfanda hveli. Nýtt afl er að taka við í samfélaginu.

Krakkarnir í Nemendaleikhúsinu ganga svo langt að lýsa verkefni sínu sem samtali við íslenskan samtíma: „Ísland í dag er á sögulegum örlagapunkti. Hinir áhyggulausu dagar eru á enda - skemmtum okkur þangað til við deyjum!!" segir í tilkynningu þeirra. Leikstjóri er Daniel Rylander, aðstoðarleikstjóri Guðmundur Kr. Oddsson. Leikmynd og búningar: Sigurður Óli Pálmason, lýsing: Egill Ingibergsson, tónlist og hljóðmynd: Jóhann Friðgeir Jóhannson. Framkvæmda-og tæknistjórn: Egill Ingibergsson og aðstoð við leikmynd og tæknivinnu: Brynja Björnsdóttir.

Leikstjórinn er sænskur og ungur að árum eins og flestallir samstarfsmenn hans: Daniel og Sigurður Óli lærðu báðir í Statens teaterskole í Kaupmannahöfn og þekkjast því. Sigurður útskrifaðist fyrir ári og hefur mest unnið úti til þessa, en Daniel útskrifaðist í vor.

Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands í vetur skipa: Bjartur Guðmundsson, Hannes Óli Ágústsson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Vigdís Másdóttir, Walter Geir Grímsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir.

Sýningar eru fyrirhugaðar á verkinu fram til 19. desember.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×