Menning

Aðventutónar á Akureyri

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur sína stóru tónleika á morgun í Íþróttahúsi Glerárskóla.mynd frÉttablaðið
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur sína stóru tónleika á morgun í Íþróttahúsi Glerárskóla.mynd frÉttablaðið

Á morgun kl. 18 verða aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Íþróttahúsi Glerárskóla á Akureyri. Einsöngvarar á tónleikunum eru Dísella Lárusdóttir og Jóhann Smári Sævarsson og hefjast tónleikarnir kl. 18.

Á efnisskránni er jóla- og aðventutónlist, m.a. eftir J. Haydn, Leroy Anderson, Gunnar þórðarson, Jórunni Viðar og Jaan Alavera, sem er jafnframt stjórnandi Kvennakórs Akureyrar. Vilhjálmur Ingi Sigurðarson leikur einleik á trompet og einnig kemur fram með hljómsveitinni Kvennakór Akureyrar. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Dísella Lárusdóttir útskrifaðist úr Söngskólanum í Reykjavík 2002. Hún stundaði meistaranám við Westminster Choir College of Rider University í Princeton í Bandaríkjunum þar sem hún útskrifaðist vorið 2005. Hún sigraði í alþjóðlegri keppni Astral Artistic Services 2006 og komst sama ár í undanúrslit í Lauren S. Zachary National Vocal Competition og einnig í keppni Placido Domingo, Operalia. Árið 2007 sigraði hún Philadelphia Orchestra Greenfield Competition. Dísella komst í undanúrslit í Metropolitan Opera National Council Auditions og fékk í framhaldi starfssamning hjá Metropolitan-óperunni í hlutverki Miss Schlesen í óperunni Satyagraha eftir Philips Glass. Í apríl hélt hún sína NY debut-tónleika í Merkin Hall og hlaut einróma góða dóma fyrir. Dísella býr og starfar í Bandaríkjunum.

Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði hann sig við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann Smári hefur átt einn glæstasta feril íslenskra óperusöngvara í Evrópu um árabil og hefur á sautján ára ferli sínum sungið yfir 50 hlutverk í óperuhúsum víðs vegar um Evrópu. Hann er nú búsettur hér á landi og starfar við kennslu og söng.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 og er því nú á sínu 16. starfsári. Kjarni hljómsveitarinnar hefur frá upphafi verið kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri og hópur hljóðfæraleikara sem býr og starfar á landsbyggðinni. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur haldið tónleika á Akureyri og víðar á Norðurlandi og fengið til liðs við sig kóra, einleikara og einsöngvara frá Akureyri og úr nágrannabyggðum og þannig stutt við og auðgað norðlenskt tónlistarlíf. Aðalstjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×