Viðskipti innlent

Straumi eignaður stór hlutur í Landsbankanum fyrir mistök

Höfuðstöðvar Landsbankans
Straumur var ranglega skráður fyrir 6,34 prósenta hlut í bankanum.
Höfuðstöðvar Landsbankans Straumur var ranglega skráður fyrir 6,34 prósenta hlut í bankanum.
Straumi-Burðarási hefur undanfarna daga verið eignaður yfir sex prósenta tilkynningarskyldur hlutur í Landsbankanum fyrir mistök. Fjárfestingarbankinn átti 1,45 prósent í Landsbankanum hinn 5. októ­­ber en í gærmorgun var hann skráður fyrir 6,34 prósentum, samkvæmt hluthafalista sem birtur var á heimasíðu Landsbankans.

Það hefði nægt Straumi til að vera annar stærsti eigandinn á eftir Samson eignarhaldsfélagi, félagi Björgólfsfeðga. Sex prósenta hlutur í Landsbankanum er metinn á tæpa nítján milljarða króna.

Þær upplýsingar fengust hjá Straumi að um villu hefði verið að ræða í hluthafaskrá Landsbankans sem hefur verið leiðrétt. Félagið vildi ekki gefa upp nákvæman eignarhlut sinn í bankanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Verðbréfaskráningu Íslands (VS) er það þeirra aðila sem eiga með sér viðskipti að tilkynna um þau til Verðbréfaskráningar. Hluthafaskrá Landsbankans og annarra skráðra félaga er keyrð í gegnum kerfi VS og því fara breytingar á eignarhaldi í félögum ekki í gegnum útgefandann sjálfan nema hann hafi milligöngu um viðskiptin. Svo var ekki í þessu tilfelli eftir því sem næst verður komist.

Nokkrar breytingar hafa orðið á lista yfir stærstu eigendur í Landsbankanum að undanförnu. Fjárfestingafélagið Sund og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar eru komin í hóp tíu stærstu hluthafa bankans en félögin halda hvort um sig utan um tæplega 1,5 prósenta hlut.

FL Group á nú orðið eitt prósent hlutafjár í Landsbankanum og hefur bætt við sig bréfum að undanförnu. [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×