Innlent

Gísli Marteinn í fyrsta sætið

Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi og sjónvarpsmaður, tilkynnti í gær að hann gæfi kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í haust. Stuðningsmenn Gísla Marteins boðuðu til fundar í Iðnó í gær þar sem Gísli Marteinn tilkynnti þessa ákvörðun sína. Húsfyllir var á fundinum. Hann sagði í tölu sem hann hélt að hann hefði fyrr um morguninn tilkynnt Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarfulltrúa og núverandi oddvita sjálfstæðismanna í borginni, að hann gæfi kost á sér í fyrsta sætið og þeir hefðu verið sammála um, að hver sú sem niðurstaðan yrði, þá skipti mestu að sjálfstæðismenn ynnu sigur í komandi kosningum. "Ég er snortinn af því að sjá hvað það komu margir. Upphaflega átti þetta að vera fámennur fundur fyrir mína helstu stuðningsmenn en hér eru yfir tvö hundruð manns og það er ég heldur betur ánægur með,"sagði Gísli Marteinn. Hann sagði að hann fyndi fyrir miklum stuðningi. "Ég finn hér í dag að ég er að fá mikinn meðbyr og er afar ánægður með það. Ef þessi stemning helst í prófkjörinu og þetta verður með svona jákvæðum og uppbyggilegum hætti þá verður þetta afar skemmtilegt og mun enda vel," sagði Gísli Marteinn. Vilhjálmur segir að hann hafi búist við því að Gísli Marteinn gæfi kost á sér í efsta sætið. "Ég býð Gísla Martein velkominn í kosningabaráttuna sem er framundan," sagði Vilhjálmur. "Ég vona að í prófkjörinu taki menn tillit til þess hvaða þekkingu og reynslu menn hafa á borgarmálum og möguleika til þess að koma festu á stjórn borgarinnar. Ég fullyrði að Sjálfstæðisflokkurinn undir minni forystu muni stuðla að verulega miklum og góðum breytingum í Reykjavík á næstum fjórum árum, fáum við tækifæri til þess." [email protected]



Fleiri fréttir

Sjá meira


×