Skoðun

Kreppa í borgarpólitíkinni

Framtíð Reykjavíkurlistans hefur verið töluvert í fréttum upp á síðkastið. Fréttirnar hafa fyrst og fremst endurspeglað tvennt. Í fyrsta lagi að töluverð þreyta virðist komin í samstarf Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins og í öðru lagi að fjölmargir samfylkingarmenn meta mátt sinn nú það mikinn að þeir telja sig ekki þurfa á hinum að halda. Benda þeir í því sambandi á að Samfylkingin sé í könnunum að mælast með jafnmikið fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn, sem um árabil var einráður í borginni. Það er ef til vill engin tilviljun að það skuli fyrst og fremst vera ungir samfylkingarmenn, framtíð flokksins, sem telji að slíta beri samstarfinu. Þeir sjá að á þeim ellefu árum sem R-listinn hefur verið við völd, hefur leiðin hægt og rólega legið niður á við. Þeir sjá að ef áfram heldur sem horfir er framtíð R-listans ekkert sérstaklega björt. Talað var um það á mánudaginn að framtíð R-listans myndi ráðast á fundi svokallaðrar viðræðunefndar aðildarflokkanna þá um daginn. Niðurstaða fundarins var óskiljanleg öllum sem fylgst hafa með málinu. Gefin var út fréttatilkynning þar sem sagði orðrétt: "Undanfarnar vikur hafa farið fram gagnlegar viðræður milli flokkanna þriggja sem mynda Reykjavíkurlistann. Ákveðinn vendipunktur varð á fundinum í dag þegar ákveðið var að vísa þeim tillögum og hugmyndum sem fram hafa komið í nánari útfærslu og vinnuferli. Fulltrúar í viðræðunefndinni munu nú skipta með sér verkum og vænta þess að ná farsælli niðurstöðu sem síðan verði kynnt borgarbúum." Eftir svona tilkynningu, sem inniheldur nákvæmlega ekki neitt, spyr maður sjálfan sig hvað í ósköpunum þetta fólk hafi verið að gera? Í fréttatímum ljósvakamiðlanna í fyrrakvöld kom ekkert fram sem skýrði málið nánar. Nefndarmenn drógu sig í hlé og vildu ekki svara neinum spurningum, sem er ekkert annað en ókurteisi við þær þúsundir kjósenda í borginni sem kusu listann í síðustu kosningum. Fólkið á rétt á að vita hvað er í gangi. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til málið fór aðeins að skýrast. Eins og lesa mátti á forsíðu Fréttablaðsins í gær var slegið á puttana á viðræðunefndinni. Forystumenn aðildarflokkanna gáfu út skipun um að nefndarmenn skyldu hætta öllu karpi og byrja að vinna. Svo virðist því sem búið sé að leggja línurnar fyrir viðræðurnar. Eftir svona leikfléttu er von að maður spyrji hvert hlutverk þessarar nefndar sé eiginlega. Eru nefndarmenn viljalausar strengjabrúður forystunnar? Af atburðarrásinni á mánudaginn að ráða er svarið: "Líklega" og það eru svo sem heldur engin ný tíðindi að topparnir ráði. Þó verður að segja eins og er að það skýtur svolítið skökku við ef það er reyndin í R-listanum sem hefur, í það minnsta að eigin mati, lagt öðrum fremur mikið upp úr lýðræðishugtakinu. Þó vandi sé á heimili borgarstjórnarmeirihlutans er alveg ljóst að hann er líka til staðar hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Þar virðist meðvirkni vera lykilorðið. Þar á bæ virðast menn ekki átta sig á stöðunni eða ekki hafa bolmagn til að horfast í augu við vandann og öll glötuðu tækifærin. Vísast geta R-listamenn helst þakkað Sjálfstæðisflokknum að þeir skuli enn vera við völd. Það er nefnilega fyrst og fremst einkar máttlaus stjórnarandstaða sem hefur tryggt R-listanum völdin. Forysta borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna virðist ómögulega getað fundið veikan blett á R-listanum. Ef þeir telja sig hafa fundið hann hefur meirihluti borgarbúa í það minnsta ekki verið á sama máli. Það sýna úrslit síðustu borgarstjórnarkosninga. Endalaus umræða um Línu.net, illa ígrundaðar skipulagshugmyndir og óskiljanleg umræða um fjármál borgarinnar, þar sem sífellt er verið að bera saman epli og appelsínur, hafa ekki fengið hljómgrunn hjá almenningi. Sjálfstæðisflokkurinn ætti kannski að skipa hóp um framtíð borgarstjórnarflokks síns, líkt og R-listamenn hafa gert. Í það minnsta er ljóst að brýn þörf er á ferskum hugmyndum innan flokksins. Hugmyndum sem ná eyrum borgarbúa. Ef Sjálfstæðisflokkurinn klúðrar næstu borgarstjórnarkosningum, og í raun hvort sem er, þarf hann að fara í allsherjar naflaskoðun. Það sést nefnilega ekki í hann fyrir kuskinu. Trausti Hafliðason - [email protected]



Skoðun

Sjá meira


×