Menning

Fór í lögfræðina af leti

Kristín Þóra lærir lögfræðina við Háskóla Íslands og er á öðrum vetri. Hún stendur á fertugu, er gift kona og þriggja barna móðir. "Auðvitað er maður ekki eins frjáls og áhyggjulaus og 21 árs stúdent en það er allt í lagi að læra þótt maður sé kominn af unglingsaldri. Þetta er bara eins og hver önnur vinna," segir hún og kveðst ekki vera ein í eldri deildinni þó að obbinn af nemendum sé mun yngri. Kristín Þóra hefur rekið garðyrkjufyrirtæki með manni sínum, Jóni Júlíusi Elíassyni, undanfarin ár og unnið úti við yfir sumarið, mest í nýframkvæmdum en líka í grónum görðum. Hún lauk námi frá Garðyrkjuskólanum 1988 og Háskóla Íslands í heimspeki 1997. Hún segir lögfræðina að því leyti erfiðasta að í henni sé fall en ekki í hinum greinunum. En hvað af þessu þrennu skyldi vera skemmtilegast að læra? "Þetta er allt skemmtilegt. Það má kannski orða það svo að margt í heimspekinni sé skemmtilegra en margt í lögfræðinni," svarar hún og segir fögin vissulega ólík. Næst er hún spurð hvað hafi drifið hana í lögfræðina. "Það var bara leti," segir hún prakkaraleg. "Ég nennti ekki að vinna eins og venjulegt fólk. Það er ákveðinn lúxus að geta leyft sér að vera í skóla." Hún viðurkennir samt að hafa alveg nóg að gera. "Maður fyllir alltaf dagskrána en í námi ræður maður samt tíma sínum aðeins meira en í fastri vinnu." Kristín Þóra þvertekur fyrir að hún vaki yfir lærdómnum um nætur. "Ég sef á nóttunni. Mér finnst svefninn svo mikil undirstaða undir verkefni dagsins en ég læri á kvöldin og stundum um helgar." Að lokum eru framtíðardraumarnir settir á dagskrá. "Lögfræðin tekur fimm ár í allt og ég vona að ég finni eitthvert starf við mitt hæfi innan hennar að náminu loknu," segir Kristín Þóra yfir doðröntunum við eldhúsborðið. [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×