Um áramót 2. janúar 2005 00:01 Halldór Ásgrímsson boðar fjölskyldugildi í fyrstu áramótaræðu sinni sem forsætisráðherra. Á síðustu árum hefur ýmsum stjórnmálamönnum orðið nokkuð hált á því að ætla að beita fjölskyldunni fyirir sig. John Major prédíkaði á sínum tíma um fjölskyldugildi undir slagorðinu "back to basics" og uppskar ekkert nema háð fyrir. Vont var að á sama tíma fóru ýmis hneykslismál að hrjá Íhaldsflokkinn - ekki öll beinlínis fjölskylduvæn. Munið þið eftir þingmanninum í íþróttagallanum uppi á eldhúsborði með plastpoka um hausinn? Síðan hefur líka komið í ljós að um þessar mundir hélt Major við þingkonuna Edwina Currie - og var því líka uppvís að því að vera hræsnari. Fjölskyldupólitík er vandmeðfarin í nútímasamfélagi. Halldór auglýsir eftir stórfjölskyldunni og elskulegum aga. En hvað er fjölskyldan núorðið? Nýlega birtust tölur um að í borg eins og Stokkhólmi byggju 60 prósent einir. Þetta eru fráskildir, aldraðir, samkynhneigðir, þeir sem ekki giftast og þeir sem eru á leið í sambönd eða út úr þeim. Sjálf fjölskyldueiningin er lika orðin agnarsmá - oft ekki meira en eitt foreldri með barn. Grunngerð þess kapítalíska samfélags sem við lifum í gerir beinlínis ráð fyrir að hver sé út af fyrir sig. Dyggðir gömlu fjölskyldunnar voru nýtni og samnýting - börnin gengu í fötum hvert af öðru. Nú snýst allt um að hægt sé að selja meira af varningi, tækjum og dóti - án sóunar hrynur kerfið. Neyslan heldur þessu gangandi. Hver einstaklingur skal eiga sinn bíl, sína þvottavél - sinn umgang af öllu draslinu. --- --- --- Biskupinn tekur í sama streng í nýársprédíkun sinni - það er næstum eins og þeir Halldór hafi talað saman um að koma fjölskyldugildunum á dagskrá. Karl segir að foreldrahlutverkið hafi aldrei verið minna metið en nú - aldrei hafi eins margir foreldrar yfirgefið börn sín og nú, á mesta velmegunarskeiði Íslandssögunnar. Ég man hversu mikið það fékk á mig þegar var lítill drengur og las fyrstu Hjaltabókina - þar sem Hjalti litli er sendur burt frá móður sinni. Þá var mér sagt frá því að afi minn hefði verið einn af tólf systkinum; vegna fátæktar ólust þau fæst upp heima hjá foreldrum sínum heldur voru send í vist til ættingja eða vandalausra. Þetta var á síðustu áratugum 19. aldar. Langafi minn og langamma dóu ung - þrotin af kröftum eftir erfiða lífsbaráttu. En allt var að breytast - ellefu af systkinunum tólf náðu háum aldri. Nú eru vissulega breyttir tímar - velmegunin hérna er slík að maður hálfpartinn skammast sín fyrir eftirsóknina eftir fánýtu drasli sem veitir enga hamingju. Að loknum jólunum situr eftir klígjutilfinning. Stórfjölskyldan er mestanpart á bak og burt og verður ekki endurreist svo glatt - þartilgerðar stofnanir vista börn og gamalmenni svo þau þvælist ekki fyrir. Bæði forsætisráðherrann og biskupinn nefna afþreyingu og hlut hennar í uppeldinu; eins og fleiri hafa þeir tilfinninguna að heimurinn sé að afþreyja sér til forheimskunar. Þegar harðri lífsbaráttunni sleppir verður eitt helsta vandamálið að fólki leiðist. Eitt sinn dreymdi menn drauma um hvernig tæknin myndi auðga líf okkar - veita auknar tómstundir og lífsfyllingu. Það er nær að halda að hún geri það smærra og marklausara. Sá sem horfir á sjónvarp í þrjá tíma á dag hefur gónt í tíu ár þegar hann verður áttræður. Afþreyingin er eins og látlaus sálarskemmdandi barsmíð á skilningarvitin - dýrkun á tækni og frægðarfólki fyllir ekki upp í tómarúm sálarinnar. Ég byrjaði þennan pistil með einhvers konar kaldhæðni en er farinn að hljóma eins og Halldór Á. og Karl S. Jæja - það verður að hafa það. --- --- --- Áramótin eru tími langra og leiðinlegra auglýsinga frá stórfyrirtækjum. Sumar þeirra eru á við heilar kvikmyndir, teknar á ótal stöðum, hérlendis og erlendis, með miklum tilfæringum. Ég hef til dæmis séð svona auglýsingar frá Baugi, KB-banka og Alcan. Yfirleitt eru þetta fyrirtæki þeirrar tegundar að þau auka ekki sölu sína með því að auglýsa. Því eru þetta kallaðar ímyndarauglýsingar - þær eiga að skilja eftir góða kennd hjá þeim sem horfir. Tískuorðið um þessi áramót er "útrás" - því er útrásin leiðarstef í mörgum þessara auglýsinga. Snjall maður stakk upp á því í þætti hjá mér á gamlársdag að vegna vondra stjórnarhátta hefði íslenska útrásin orðið hundrað árum of seint. Það er athyglisverð kenning. Annað sem vekur góða kennd eru börn; það er áberandi hversu fyrirtæki - þó fyrst og fremst bankarnir - flagga börnum bæði í jóla- og áramótakveðjum. Bankarnir hér eru komnir langleiðina með að telja okkur trú um að þeir séu góðgerðastofnanir. Þetta minnir mig á sögu sem vinur minn sagði mér. Hann var að reyna að herja styrktarfé út úr hópi áhugalausra bankamanna. Viðmótið breyttist talsvert þegar fór að renna upp fyrir bankamönnunum að þetta gæti haft í för með sér að stór hópur barna kæmi í bankann hjá þeim. Þeir uppljómuðust á svipinn eins og nirfillinn Fagin í bókinni eftir Dickens - spurðu vongóðir hvort þetta yrði kannski eitthvað í ætt við Magnús Scheving og latóhagkerfið. Með því munu ótal barnssálir hafa verið fluttar inn í bankakerfið - því fátt er arðvænlegra en að fá barn í viðskipti og geta svo féflett það alla ævina. --- --- --- Veðurhysterían sem hefur gripið um sig núna um hátíðarnar er svo fáránleg að maður á ekki orð. Á Þorláksmessu var þjóðinni sagt að það væri svo kalt að ekki væri hægt að fara út úr húsi. Afleiðingin var hálftómur bær - í ágætu veðri, nokkuð köldu, en þurru og stilltu. Fyrir áramótin greip móðursýkin aftur um sig í fjölmiðlunum. Boðað var að hér myndi ganga yfir ógurlegt óveður - menn linntu ekki látum fyrr en búið var að fresta öllum áramótabrennunum. Sjálfur hef ég verið við brennuna á Ægissíðu í ólíklegustu veðrum - slyddu, hríð, roki og rigningu, brunagaddi. Í fyrra minnir mig að veðrið hafi verið ógeðslegt þar vesturfrá og brennan mjög tíkarleg. En núna var besta veður. Engin ástæða til að láta svona. Plís hlífið okkur við þessu kjaftæði framvegis og leyfið okkur að hafa þessa litlu skemmtun í friði. Við ákveðum svo bara sjálf hvort við förum út í veðrið. --- --- --- Vegna tæknilegra mistaka er þátturinn frá því á gamlársdag ekki enn kominn á netið. Það stendur til bóta á morgun - eða það vona ég að minnsta kosti. Gleðilegt ár. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið Halldór 16.11.2024 Halldór Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Miðflokkurinn stendur vörð um bændur Högni Elfar Gylfason Skoðun
Halldór Ásgrímsson boðar fjölskyldugildi í fyrstu áramótaræðu sinni sem forsætisráðherra. Á síðustu árum hefur ýmsum stjórnmálamönnum orðið nokkuð hált á því að ætla að beita fjölskyldunni fyirir sig. John Major prédíkaði á sínum tíma um fjölskyldugildi undir slagorðinu "back to basics" og uppskar ekkert nema háð fyrir. Vont var að á sama tíma fóru ýmis hneykslismál að hrjá Íhaldsflokkinn - ekki öll beinlínis fjölskylduvæn. Munið þið eftir þingmanninum í íþróttagallanum uppi á eldhúsborði með plastpoka um hausinn? Síðan hefur líka komið í ljós að um þessar mundir hélt Major við þingkonuna Edwina Currie - og var því líka uppvís að því að vera hræsnari. Fjölskyldupólitík er vandmeðfarin í nútímasamfélagi. Halldór auglýsir eftir stórfjölskyldunni og elskulegum aga. En hvað er fjölskyldan núorðið? Nýlega birtust tölur um að í borg eins og Stokkhólmi byggju 60 prósent einir. Þetta eru fráskildir, aldraðir, samkynhneigðir, þeir sem ekki giftast og þeir sem eru á leið í sambönd eða út úr þeim. Sjálf fjölskyldueiningin er lika orðin agnarsmá - oft ekki meira en eitt foreldri með barn. Grunngerð þess kapítalíska samfélags sem við lifum í gerir beinlínis ráð fyrir að hver sé út af fyrir sig. Dyggðir gömlu fjölskyldunnar voru nýtni og samnýting - börnin gengu í fötum hvert af öðru. Nú snýst allt um að hægt sé að selja meira af varningi, tækjum og dóti - án sóunar hrynur kerfið. Neyslan heldur þessu gangandi. Hver einstaklingur skal eiga sinn bíl, sína þvottavél - sinn umgang af öllu draslinu. --- --- --- Biskupinn tekur í sama streng í nýársprédíkun sinni - það er næstum eins og þeir Halldór hafi talað saman um að koma fjölskyldugildunum á dagskrá. Karl segir að foreldrahlutverkið hafi aldrei verið minna metið en nú - aldrei hafi eins margir foreldrar yfirgefið börn sín og nú, á mesta velmegunarskeiði Íslandssögunnar. Ég man hversu mikið það fékk á mig þegar var lítill drengur og las fyrstu Hjaltabókina - þar sem Hjalti litli er sendur burt frá móður sinni. Þá var mér sagt frá því að afi minn hefði verið einn af tólf systkinum; vegna fátæktar ólust þau fæst upp heima hjá foreldrum sínum heldur voru send í vist til ættingja eða vandalausra. Þetta var á síðustu áratugum 19. aldar. Langafi minn og langamma dóu ung - þrotin af kröftum eftir erfiða lífsbaráttu. En allt var að breytast - ellefu af systkinunum tólf náðu háum aldri. Nú eru vissulega breyttir tímar - velmegunin hérna er slík að maður hálfpartinn skammast sín fyrir eftirsóknina eftir fánýtu drasli sem veitir enga hamingju. Að loknum jólunum situr eftir klígjutilfinning. Stórfjölskyldan er mestanpart á bak og burt og verður ekki endurreist svo glatt - þartilgerðar stofnanir vista börn og gamalmenni svo þau þvælist ekki fyrir. Bæði forsætisráðherrann og biskupinn nefna afþreyingu og hlut hennar í uppeldinu; eins og fleiri hafa þeir tilfinninguna að heimurinn sé að afþreyja sér til forheimskunar. Þegar harðri lífsbaráttunni sleppir verður eitt helsta vandamálið að fólki leiðist. Eitt sinn dreymdi menn drauma um hvernig tæknin myndi auðga líf okkar - veita auknar tómstundir og lífsfyllingu. Það er nær að halda að hún geri það smærra og marklausara. Sá sem horfir á sjónvarp í þrjá tíma á dag hefur gónt í tíu ár þegar hann verður áttræður. Afþreyingin er eins og látlaus sálarskemmdandi barsmíð á skilningarvitin - dýrkun á tækni og frægðarfólki fyllir ekki upp í tómarúm sálarinnar. Ég byrjaði þennan pistil með einhvers konar kaldhæðni en er farinn að hljóma eins og Halldór Á. og Karl S. Jæja - það verður að hafa það. --- --- --- Áramótin eru tími langra og leiðinlegra auglýsinga frá stórfyrirtækjum. Sumar þeirra eru á við heilar kvikmyndir, teknar á ótal stöðum, hérlendis og erlendis, með miklum tilfæringum. Ég hef til dæmis séð svona auglýsingar frá Baugi, KB-banka og Alcan. Yfirleitt eru þetta fyrirtæki þeirrar tegundar að þau auka ekki sölu sína með því að auglýsa. Því eru þetta kallaðar ímyndarauglýsingar - þær eiga að skilja eftir góða kennd hjá þeim sem horfir. Tískuorðið um þessi áramót er "útrás" - því er útrásin leiðarstef í mörgum þessara auglýsinga. Snjall maður stakk upp á því í þætti hjá mér á gamlársdag að vegna vondra stjórnarhátta hefði íslenska útrásin orðið hundrað árum of seint. Það er athyglisverð kenning. Annað sem vekur góða kennd eru börn; það er áberandi hversu fyrirtæki - þó fyrst og fremst bankarnir - flagga börnum bæði í jóla- og áramótakveðjum. Bankarnir hér eru komnir langleiðina með að telja okkur trú um að þeir séu góðgerðastofnanir. Þetta minnir mig á sögu sem vinur minn sagði mér. Hann var að reyna að herja styrktarfé út úr hópi áhugalausra bankamanna. Viðmótið breyttist talsvert þegar fór að renna upp fyrir bankamönnunum að þetta gæti haft í för með sér að stór hópur barna kæmi í bankann hjá þeim. Þeir uppljómuðust á svipinn eins og nirfillinn Fagin í bókinni eftir Dickens - spurðu vongóðir hvort þetta yrði kannski eitthvað í ætt við Magnús Scheving og latóhagkerfið. Með því munu ótal barnssálir hafa verið fluttar inn í bankakerfið - því fátt er arðvænlegra en að fá barn í viðskipti og geta svo féflett það alla ævina. --- --- --- Veðurhysterían sem hefur gripið um sig núna um hátíðarnar er svo fáránleg að maður á ekki orð. Á Þorláksmessu var þjóðinni sagt að það væri svo kalt að ekki væri hægt að fara út úr húsi. Afleiðingin var hálftómur bær - í ágætu veðri, nokkuð köldu, en þurru og stilltu. Fyrir áramótin greip móðursýkin aftur um sig í fjölmiðlunum. Boðað var að hér myndi ganga yfir ógurlegt óveður - menn linntu ekki látum fyrr en búið var að fresta öllum áramótabrennunum. Sjálfur hef ég verið við brennuna á Ægissíðu í ólíklegustu veðrum - slyddu, hríð, roki og rigningu, brunagaddi. Í fyrra minnir mig að veðrið hafi verið ógeðslegt þar vesturfrá og brennan mjög tíkarleg. En núna var besta veður. Engin ástæða til að láta svona. Plís hlífið okkur við þessu kjaftæði framvegis og leyfið okkur að hafa þessa litlu skemmtun í friði. Við ákveðum svo bara sjálf hvort við förum út í veðrið. --- --- --- Vegna tæknilegra mistaka er þátturinn frá því á gamlársdag ekki enn kominn á netið. Það stendur til bóta á morgun - eða það vona ég að minnsta kosti. Gleðilegt ár.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun