Móttökuskilyrði í skólum 2. desember 2004 00:01 Eitt helzta aðalsmerki nútímans er þetta: það verður æ auðveldara að taka lífinu létt. Þessu veldur vaxandi velsæld og aukin hagkvæmni á öllum sviðum, einnig þar sem menn héldu lengi vel, að engum tækniframförum sem orð er á gerandi yrði nokkurn tímann við komið. Þessi hugsun á við um ýmsa þjónustu, t.d. listir (það er a.m.k. tuttugu manna verk að leika Skugga-Svein á sviði og hefur alltaf verið, og Hamlet), en hún á ekki við um vísindi, því að þar hefur verkfærunum fleygt fram og afraksturinn aukizt eftir því. Hvað um kennslu? Það hefur löngum tíðkazt að líta svo á, að úr því að kennsla er þjónusta eins við annan, þá sé engrar umtalsverðrar framleiðniaukningar að vænta á þeim vettvangi, ekki frekar en í annarri persónulegri þjónustu eða listum: það þarf einn kennara í bekk til að stumra yfir svo og svo mörgum nemendum, og bekkjarstærðina er ekki hægt að auka endalaust. Sem sagt: lítil sem engin framleiðniaukning þar til langs tíma litið. Og þá gerðist það, að tölvur héldu innreið sína í kennslustofurnar eins og þær höfðu áður rutt sér til rúms í víngarði vísindanna. Af þessu leiddi, að nú er hægt að koma meira námsefni til skila á minni tíma en áður – og einmitt þetta er auðkenni aukinnar hagkvæmni: að nota nýjar aðferðir til að kreista meiri afurðir úr gefnum aðföngum. Útsendingarkrafturinn í kennslustofunum hefur aukizt til muna. Kennarar þurfa ekki lengur að krota með krít á töflu: þeir geta varpað texta og myndum á tjald eða vegg eftir smekk og þörfum, og það er bæði fljótlegra og skýrara en að skrifa á töflu. Nemendur þurfa ekki lengur að sitja sveittir við að skrifa upp eftir kennaranum, a.m.k. ekki í sama mæli og áður: þeir sækja námsefnið á netið. Kennarar og nemendur þurfa sjaldnar en áður að sækja bókasöfn, því að þau bjóða viðskiptavinum sínum síbatnandi heimsendingarþjónustu á netinu; það gerir t.d. Þjóðarbókhlaðan með miklum brag. Móttökuskilyrðin í skólunum hafa batnað í hátt við útsendingarskilyrðin eftir þeirri einföldu reglu, að menn taka betur á móti góðri kennslu en vondri. Þess er þó varla að vænta, að móttökugetan í skólastofunum aukist til jafns við útsendingargetuna, því að mannshugurinn þarf að virða tiltekin hraðamörk, bæði að ofan og neðan. Nýjar kennsluaðferðir storka efri hraðamörkunum, því að nú þurfa kennarar að gæta sín á því að fara ekki fram úr nemendum sínum í krafti nýrrar kennslutækni. Gömlu aðferðirnar samrýmdust neðri hraðamörkunum hins vegar ekki nógu vel, eða svo hefur mér sýnzt. Þess vegna hefur mörgum leiðzt í skóla: dræm útsending við erfið skilyrði hélt aftur af námshraðanum, svo að hugur nemendanna komst ekki á flug. Og þess vegna leiðist mörgum að lesa: þeir hafa ekki lært að lesa nógu hratt. Mönnum leiðist síður í bíó, því að þar er hraðinn meiri. Efnið, sem góður leikstjóri kemur til skila í eins og hálfs tíma kvikmynd, er jafnan meira en rúmast í jafnlöngum fyrirlestri. Hvaða kennari treystir sér til að keppa við Kösublönku um upplýsingamagn á mínútu? Því mannshugurinn er eins og reiðhjól: hann verður að ná tilteknum hraða til þess að fá notið sín til fulls. Hvernig eigum við að skipta með okkur afrakstri aukinna afkasta í kennslu? Eigum við að taka afraksturinn út í meiri og betri menntun að gefinni skólagöngu? Eða eigum við heldur að fara milliveginn og nýta framleiðniaukninguna m.a. til að stytta skólavistina? Ég hallast frekar að síðari kostinum, og það gera stjórnvöld, enda hefur nú verið ákveðið að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár. Ég hef áður lýst því á þessum stað, að það hefði verið heppilegra að stytta grunnskólann frekar en framhaldsskólann, af því að slakinn er meiri í grunnskólanum og meira svigrúm þar til samþjöppunar og styttingar náms. Eigi að síður virðist það ljóst, að það námsefni, sem menn eiga að hafa tileinkað sér við stúdentspróf um tvítugt með gamla laginu, væri flestum hægðarleikur að ná valdi á a.m.k. tveim árum fyrr í krafti nýrra kennsluhátta – og þá er ég ekki aðeins að tala um tölvur, heldur einnig kennaramenntun, kennslubækur og önnur námsgögn, sem hafa batnað til muna í flestum greinum. Menn læra meira – og hraðar! – af góðum bókum en vondum, og skemmta sér um leið. Það er því hægt að gera hvort tveggja í einu: að auka við og bæta menntun sína og eyða færri árum ævinnar á skólabekk. Stefnum þangað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Krónur, evrur og fullveldi Bjarni Benediktsson Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Miðflokkurinn stendur vörð um bændur Högni Elfar Gylfason Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Plan Samfylkingar: Svona náum við niður vöxtunum Jóhann Páll Jóhannsson Skoðun Höldum áfram með íslenskuna og konuna Helga Dögg Sverrisdóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun
Eitt helzta aðalsmerki nútímans er þetta: það verður æ auðveldara að taka lífinu létt. Þessu veldur vaxandi velsæld og aukin hagkvæmni á öllum sviðum, einnig þar sem menn héldu lengi vel, að engum tækniframförum sem orð er á gerandi yrði nokkurn tímann við komið. Þessi hugsun á við um ýmsa þjónustu, t.d. listir (það er a.m.k. tuttugu manna verk að leika Skugga-Svein á sviði og hefur alltaf verið, og Hamlet), en hún á ekki við um vísindi, því að þar hefur verkfærunum fleygt fram og afraksturinn aukizt eftir því. Hvað um kennslu? Það hefur löngum tíðkazt að líta svo á, að úr því að kennsla er þjónusta eins við annan, þá sé engrar umtalsverðrar framleiðniaukningar að vænta á þeim vettvangi, ekki frekar en í annarri persónulegri þjónustu eða listum: það þarf einn kennara í bekk til að stumra yfir svo og svo mörgum nemendum, og bekkjarstærðina er ekki hægt að auka endalaust. Sem sagt: lítil sem engin framleiðniaukning þar til langs tíma litið. Og þá gerðist það, að tölvur héldu innreið sína í kennslustofurnar eins og þær höfðu áður rutt sér til rúms í víngarði vísindanna. Af þessu leiddi, að nú er hægt að koma meira námsefni til skila á minni tíma en áður – og einmitt þetta er auðkenni aukinnar hagkvæmni: að nota nýjar aðferðir til að kreista meiri afurðir úr gefnum aðföngum. Útsendingarkrafturinn í kennslustofunum hefur aukizt til muna. Kennarar þurfa ekki lengur að krota með krít á töflu: þeir geta varpað texta og myndum á tjald eða vegg eftir smekk og þörfum, og það er bæði fljótlegra og skýrara en að skrifa á töflu. Nemendur þurfa ekki lengur að sitja sveittir við að skrifa upp eftir kennaranum, a.m.k. ekki í sama mæli og áður: þeir sækja námsefnið á netið. Kennarar og nemendur þurfa sjaldnar en áður að sækja bókasöfn, því að þau bjóða viðskiptavinum sínum síbatnandi heimsendingarþjónustu á netinu; það gerir t.d. Þjóðarbókhlaðan með miklum brag. Móttökuskilyrðin í skólunum hafa batnað í hátt við útsendingarskilyrðin eftir þeirri einföldu reglu, að menn taka betur á móti góðri kennslu en vondri. Þess er þó varla að vænta, að móttökugetan í skólastofunum aukist til jafns við útsendingargetuna, því að mannshugurinn þarf að virða tiltekin hraðamörk, bæði að ofan og neðan. Nýjar kennsluaðferðir storka efri hraðamörkunum, því að nú þurfa kennarar að gæta sín á því að fara ekki fram úr nemendum sínum í krafti nýrrar kennslutækni. Gömlu aðferðirnar samrýmdust neðri hraðamörkunum hins vegar ekki nógu vel, eða svo hefur mér sýnzt. Þess vegna hefur mörgum leiðzt í skóla: dræm útsending við erfið skilyrði hélt aftur af námshraðanum, svo að hugur nemendanna komst ekki á flug. Og þess vegna leiðist mörgum að lesa: þeir hafa ekki lært að lesa nógu hratt. Mönnum leiðist síður í bíó, því að þar er hraðinn meiri. Efnið, sem góður leikstjóri kemur til skila í eins og hálfs tíma kvikmynd, er jafnan meira en rúmast í jafnlöngum fyrirlestri. Hvaða kennari treystir sér til að keppa við Kösublönku um upplýsingamagn á mínútu? Því mannshugurinn er eins og reiðhjól: hann verður að ná tilteknum hraða til þess að fá notið sín til fulls. Hvernig eigum við að skipta með okkur afrakstri aukinna afkasta í kennslu? Eigum við að taka afraksturinn út í meiri og betri menntun að gefinni skólagöngu? Eða eigum við heldur að fara milliveginn og nýta framleiðniaukninguna m.a. til að stytta skólavistina? Ég hallast frekar að síðari kostinum, og það gera stjórnvöld, enda hefur nú verið ákveðið að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár. Ég hef áður lýst því á þessum stað, að það hefði verið heppilegra að stytta grunnskólann frekar en framhaldsskólann, af því að slakinn er meiri í grunnskólanum og meira svigrúm þar til samþjöppunar og styttingar náms. Eigi að síður virðist það ljóst, að það námsefni, sem menn eiga að hafa tileinkað sér við stúdentspróf um tvítugt með gamla laginu, væri flestum hægðarleikur að ná valdi á a.m.k. tveim árum fyrr í krafti nýrra kennsluhátta – og þá er ég ekki aðeins að tala um tölvur, heldur einnig kennaramenntun, kennslubækur og önnur námsgögn, sem hafa batnað til muna í flestum greinum. Menn læra meira – og hraðar! – af góðum bókum en vondum, og skemmta sér um leið. Það er því hægt að gera hvort tveggja í einu: að auka við og bæta menntun sína og eyða færri árum ævinnar á skólabekk. Stefnum þangað.
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun