Menning

Of þungur í tólf ár

"Ég er búinn að vera með einkaþjálfara í átta mánuði en er nú í mánaðarfríi. Ég er búinn að missa sautján kíló og byggja upp heilmikinn vöðvamassa," segir Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari, aðspurður um það hvernig hann haldi sér í formi. "Ég finn þvílíkan mun á mér. Þegar ég byrjaði hjá einkaþjálfaranum var ég eins og gamall karl. Mesta breytingin sem ég finn er að brennslan er orðin miklu hraðari eftir að ég byrjaði að byggja upp vöðvamassann. Það var orðið þannig með mig áður en ég byrjaði gat ég hvergi keypt mér föt þar sem ekkert passaði á mig. Síðan leið mér mjög illa. Ég var búinn að vera of þungur í tólf ár eða allt frá því að ég var ellefu eða tólf ára. Ég bjó svo nálægt sjoppunni á Dalvík," segir Friðrik og hlær. Margir kjósa þann kost í stöðunni að fá sér einkaþjálfara þegar barist er við aukakílóin og Friðrik ber því góða sögu. "Ég hef prófað allt; Herbalife, Nature´s Own og ég var búinn að prófa að fara einn í ræktina. Það er allt annað þegar einkaþjálfarinn bíður -- þá fer ég frekar. Nú ætla ég einmitt að fara að hringja í stelpuna sem ég er hjá aftur því ég finn að ég fer ekki í ræktina án hennar -- það er alltof erfitt. Aginn er ekki meiri en þetta." Friðrik reynir ekki aðeins að hreyfa sig mikið heldur passar hann að mataræðið sé í góðu lagi líka. "Ég borða skyr á hverjum einasta degi sem eina máltíð. Síðan borða ég líka hrökkbrauð og léttost og drekk alltaf undanrennu. Þetta er reyndar frekar erfitt hjá mér þar sem ég er algjör sælkeri og nammigrís. Ég er til dæmis dottinn í það núna að kaupa mér kökudeig út í búð og baka mér smákökur á átta mínútum og drekka mjólk með. Það er rosalega gott, sérstaklega þegar er svona hlýtt úti. Ég leyfi mér svona hluti en hef fastar þrjár máltíðir á dag þar sem ég hugsa um hvað ég borða." [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×