Menning

Hjúkrunarmenntun gildir um allt

"Hingað til hefur ekki verið vandamál fyrir hjúkrunarfræðinga að fá vinnu erlendis. Kannski er þess aðeins farið að gæta nú í einstaka landi, svosem í Finnlandi og Austurríki en í Bretlandi en mikill skortur á þeim," segir Sólveig Hallgrímsdóttir, deildarstjóri í Skjaldarvík við Akureyri. Hún er ein þeirra sem hefur farið til hjúkrunarstarfa í útlöndum tíma og tíma og þá svalað ævintýraþránni í leiðinni. Árið eftir að hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands kveðst hún hafa haldið til Danmerkur, "svona til að prófa að vinna erlendis," eins og hún orðar það. Eftir í sjö mánuði þar fór hana að langa til Ameríku svo hún kom heim og fór að koma pappírum sínum í lag, ásamt því að stunda sitt fag hér í tvö ár. En þá lagði hún upp og lenti á Flórída. Sólveig hefur lengst af sinnt gjörgæsluhjúkrun og þannig var það á Flórída. Þar var hún í hálft annað ár en kom þá heim og gerðist deildarstjóri á gjörgæsludeild FSA. Ferðafiðringurinn sagði til sín eftir nokkur ár og 1990 hélt hún af stað og nú ekki styttra en til Ástralíu þar sem hennar biðu tvö viðburðarrík ár. "Það var gaman en líka mjög erfitt," rifjar hún upp og lýsir því nánar. "Ég var fyrst á gjörgæsludeild í Sydney en fór síðan norður í land þegar haustaði, þar inn á ráðningarskrifstofu og var komin út í eyðimörk eftir þrjá daga að vinna á heilsugæslustöð hjá svörtum frumbyggjum. Það var mjög sérstakt lið og ólíkt okkur. Sem dæmi má nefna mjög flókið nafnakerfi til þess að koma í veg fyrir innbyrðis blóðblöndum, fjórir flokkar af kvennöfnum með fjórum nöfnum hver og átta tveggja nafna flokkar hjá körlum. Svo rúllar þetta þannig að ef þú heitir þessu nafni þá máttu giftast manni af þinni kynslóð sem heitir annað hvort þetta eða hitt og karlarnir eiga margir tvær konur hver. Ást á milli karls og konu er sjaldgæf en börnin fæðast og það mikið af þeim. Ég var þarna í tæpt ár og við tókum á því brýnasta eins og næringarástandi barnanna og sýkingum sem mikið er af því þrifnaðurinn er ekki eins og okkur dettur í hug." Eftir þessa reynslu var Sólveig að vinna á slysadeild á Akureyri í sjö ár en fór þá til Bretlands og vann í London í eitt ár. "Maður verður að nýta möguleikana," segir hún hress. "Hjúkrunarmenntunin er þannig að þetta er hægt og ef maður þorir þá er þetta ofboðslega gaman." [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×