Pólitísk tilraunastarfsemi 8. júlí 2004 00:01 Tilraun Björns Bjarnasonar með að kanna hvort þjóðin tæki efti því hvort hann breytti "brellu- pistli" á heimasíðu sinni hefur óneitanlega vakið nokkra athygli. Björn segir þessa tilraun ekkert tengjast því að sú leið í fjölmiðlamálinu sem hann kallaði í háði "brellu" í pistlinum reyndist síðan verða sú leið sem ríkisstjórnin, og þar með hann sjálfur kaus að fara. Þvert á móti var Björn, að eigin sögn, aðeins að kanna hvort almenningur væri að fylgjast með síðunni, og þakkaði blaðakonu Fréttablaðsins fyrir að hafa tekið þátt í þessari tilraun: Úr því hún hafði tekið eftir breytingunum væri niðurstaða tilraunarinnar greinilega sú að fólk væri að fylgjast með. Frétt um þessa vandræðalegu skýringu, hafða eftir Birni sjálfum, mátti lesa í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Óhætt er að mæla með því við Björn að nota aðrar aðferðir við lesendakannanir í framtíðinni! En það er ekki einnungis Björn Bjarnason sem er með óvenjulega tilraunastarfsemi í pólitískri umræðu þessa dagana. Öll stefna fjölmiðla- eða þjóðaratkvæðagreiðslumálsins er uppfull af nýjungum og áður óþekktum skilningi á eðli pólitískra fyrirbæra. Ekki nóg með að búið sé að setja forsetann í mikla klípu, heldur stefnir í gríðarmikil átök á þingi og sjaldan hefur maður heyrt eins mikinn kurr í alþýðu manna vegna nokkurrar stjórnarathafnar. Vissulega hrista flestir höfuðið og tala um sandkassaleik, en þegar betur er að gáð má greina almenna reiði út í landsfeðurna, reiði af því tagi sem er óvenjulegt að finna fyrir hjá hinum almenna íslenska kjósenda. Stjórnarflokkarnir eru því komnir inn á hættulegt pólitískt jarðprengjusvæði - svæði sem líka getur reynst stjórnarandstöðunni skeinuhætt haldi hún ekki rétt á spöðunum. Tvenn pólitísk nýmæli er vert vert að nefna sérstaklega, þó vissulega séu þau mýmörg í umræðu dagsins. Annars vegar er það sú frumlega tenging að leggja alþingiskosningar að jöfnu við þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar að gera ekki greinarmun á lagafrumvarpi og stefnuyfirlýsingu eða þingsályktunartillögu.Meginrök stjórnarinnar fyrir því að um nýtt fjölmiðlafrumvarp sé að ræða felast í því að gildistími laganna er færður rétt aftur fyrir næstu alþingiskosningar. Kosið verði um vorið 2007 og ef vel gengur að mynda nýja stjórn, þá getur nýtt alþingi breytt lögunum áður en þau taka gildi í lok sumars. Þetta er sagt verða til þess að kjósendur geti tjáð sig um fjölmiðlafrumvarpið og þjóðaratkvæðagreiðslan því óþörf. Hér er algerlega horft framhjá því að eðlismunur er á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt mál og því að kjósa stjórnmálaflokka eða almennar stjórnmálastefnur og tiltekna stjórnmálamenn til valda á fulltrúaþinginu. Það er í raun verið að setja mjög háa þröskulda fyrir þá sem eru á móti fjölmiðlalögunum - þeir þurfa að láta fjölmiðlafrumvarpið eitt vega á móti öllum hugsanlegum öðrum atriðum sem annars réðu því hvernig þeir greiddu atkvæði. Ungur framsóknarmaður, sem er með miklar efasemdir um lögin og hefði fellt frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þarf því að velja á milli afstöðu sinnar í þessu eina máli annars vegar og svo hins vegar allri lífssýn sinni, flokkshollustu, samvinnuhugmyndafræði og öðrum góðum málum flokksins. Þröskuldarnir sem menn voru að tala um að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu " jafnvel þeir hæstu " eru barnaleikur miðað við þetta. Hafi fyrirhuguð tilraunastarfsemi stjórnarinnar með að setja þröskulda í þjóðaratkvæðagreiðslu skapað réttaróvissu og hugsanlega málsókn, eins og bæði Geir Haarde og Halldór Ásgrímsson hafa sagt, þá er réttaróvissan síst minni með þeirri leið sem þeir nú velja. Önnur meginrök í tilraunastarfi stjórnarinnar felast í því að samráð muni haft við stjórnarandstöðu eftir að lögin verði sett. Lögin eigi í raun ekki að vera annað en stefnumörkun til framtíðar um að þessi mál verði tekin til skoðunar og um þau settar reglur. Í umræðunni hefur það komið glöggt fram hjá foringjum stjórnarinnar að með þessari "útréttu sáttahönd" sé ríkisstjórnin tilbúin til að endurskoða lögin, breyta þeim og láta þau ná til fleiri þátta, ef samstaða næðist um slíkt. Allir hafa þeir ráðherrar sem á annað borð hafa tjáð sig um málið þó talað um að lögin séu "rammi inn í framtíðina". Svo vill til að til eru nokkrar gerðir þingmála og lagafrumvörp eru einungis ein þessara tegunda. Önnur tegund er þingsályktun þar sem Alþingi lýsir stefnu sinni í tilteknum málum. Þannig eru ýmsar áætlanir stjórnvalda og rammar inn í framtíðina, s.s. byggðaáætlun og samgönguáætlun í formi þingsályktunar. Eins og tilgangi fjölmiðlafrumvarpsins er lýst hefði í raun verið miklu eðlilegra að þessi stefna meirihluta alþingis og rammi inn í framtíðina væri einfaldlega settur í þingsályktun, eins konar fjölmiðlaáætlun. Þá hefðu menn líka losnað við ýmis vandamál, s.s. að stilla forsetanum upp við vegg, að efna til ómælds pólitísks ófriðar, og að setja lög með það að yfirlýstu markmiði að breyta þeim áður en þau taka gildi. Þó stjórnskipan landsins sé óheppilegur vettvangur tilraunastarfsemi er brýnt að læra af niðurstöðunum. Líkt og Björn Bjarnason komst, með tilraun, að því að fylgst er með heimasíðu hans, þá leiða niðurstöður tilrauna í ljós að hin nýja "sáttaleið" ríkisstjórnarinnar er ekki að ganga upp. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Mest lesið Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Ekki láta kaupa atkvæði þitt Alexandra Briem Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Krónur, evrur og fullveldi Bjarni Benediktsson Skoðun 200 þúsund til að búa í fatahengi LOL Derek T. Allen Skoðun
Tilraun Björns Bjarnasonar með að kanna hvort þjóðin tæki efti því hvort hann breytti "brellu- pistli" á heimasíðu sinni hefur óneitanlega vakið nokkra athygli. Björn segir þessa tilraun ekkert tengjast því að sú leið í fjölmiðlamálinu sem hann kallaði í háði "brellu" í pistlinum reyndist síðan verða sú leið sem ríkisstjórnin, og þar með hann sjálfur kaus að fara. Þvert á móti var Björn, að eigin sögn, aðeins að kanna hvort almenningur væri að fylgjast með síðunni, og þakkaði blaðakonu Fréttablaðsins fyrir að hafa tekið þátt í þessari tilraun: Úr því hún hafði tekið eftir breytingunum væri niðurstaða tilraunarinnar greinilega sú að fólk væri að fylgjast með. Frétt um þessa vandræðalegu skýringu, hafða eftir Birni sjálfum, mátti lesa í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Óhætt er að mæla með því við Björn að nota aðrar aðferðir við lesendakannanir í framtíðinni! En það er ekki einnungis Björn Bjarnason sem er með óvenjulega tilraunastarfsemi í pólitískri umræðu þessa dagana. Öll stefna fjölmiðla- eða þjóðaratkvæðagreiðslumálsins er uppfull af nýjungum og áður óþekktum skilningi á eðli pólitískra fyrirbæra. Ekki nóg með að búið sé að setja forsetann í mikla klípu, heldur stefnir í gríðarmikil átök á þingi og sjaldan hefur maður heyrt eins mikinn kurr í alþýðu manna vegna nokkurrar stjórnarathafnar. Vissulega hrista flestir höfuðið og tala um sandkassaleik, en þegar betur er að gáð má greina almenna reiði út í landsfeðurna, reiði af því tagi sem er óvenjulegt að finna fyrir hjá hinum almenna íslenska kjósenda. Stjórnarflokkarnir eru því komnir inn á hættulegt pólitískt jarðprengjusvæði - svæði sem líka getur reynst stjórnarandstöðunni skeinuhætt haldi hún ekki rétt á spöðunum. Tvenn pólitísk nýmæli er vert vert að nefna sérstaklega, þó vissulega séu þau mýmörg í umræðu dagsins. Annars vegar er það sú frumlega tenging að leggja alþingiskosningar að jöfnu við þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar að gera ekki greinarmun á lagafrumvarpi og stefnuyfirlýsingu eða þingsályktunartillögu.Meginrök stjórnarinnar fyrir því að um nýtt fjölmiðlafrumvarp sé að ræða felast í því að gildistími laganna er færður rétt aftur fyrir næstu alþingiskosningar. Kosið verði um vorið 2007 og ef vel gengur að mynda nýja stjórn, þá getur nýtt alþingi breytt lögunum áður en þau taka gildi í lok sumars. Þetta er sagt verða til þess að kjósendur geti tjáð sig um fjölmiðlafrumvarpið og þjóðaratkvæðagreiðslan því óþörf. Hér er algerlega horft framhjá því að eðlismunur er á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt mál og því að kjósa stjórnmálaflokka eða almennar stjórnmálastefnur og tiltekna stjórnmálamenn til valda á fulltrúaþinginu. Það er í raun verið að setja mjög háa þröskulda fyrir þá sem eru á móti fjölmiðlalögunum - þeir þurfa að láta fjölmiðlafrumvarpið eitt vega á móti öllum hugsanlegum öðrum atriðum sem annars réðu því hvernig þeir greiddu atkvæði. Ungur framsóknarmaður, sem er með miklar efasemdir um lögin og hefði fellt frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þarf því að velja á milli afstöðu sinnar í þessu eina máli annars vegar og svo hins vegar allri lífssýn sinni, flokkshollustu, samvinnuhugmyndafræði og öðrum góðum málum flokksins. Þröskuldarnir sem menn voru að tala um að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu " jafnvel þeir hæstu " eru barnaleikur miðað við þetta. Hafi fyrirhuguð tilraunastarfsemi stjórnarinnar með að setja þröskulda í þjóðaratkvæðagreiðslu skapað réttaróvissu og hugsanlega málsókn, eins og bæði Geir Haarde og Halldór Ásgrímsson hafa sagt, þá er réttaróvissan síst minni með þeirri leið sem þeir nú velja. Önnur meginrök í tilraunastarfi stjórnarinnar felast í því að samráð muni haft við stjórnarandstöðu eftir að lögin verði sett. Lögin eigi í raun ekki að vera annað en stefnumörkun til framtíðar um að þessi mál verði tekin til skoðunar og um þau settar reglur. Í umræðunni hefur það komið glöggt fram hjá foringjum stjórnarinnar að með þessari "útréttu sáttahönd" sé ríkisstjórnin tilbúin til að endurskoða lögin, breyta þeim og láta þau ná til fleiri þátta, ef samstaða næðist um slíkt. Allir hafa þeir ráðherrar sem á annað borð hafa tjáð sig um málið þó talað um að lögin séu "rammi inn í framtíðina". Svo vill til að til eru nokkrar gerðir þingmála og lagafrumvörp eru einungis ein þessara tegunda. Önnur tegund er þingsályktun þar sem Alþingi lýsir stefnu sinni í tilteknum málum. Þannig eru ýmsar áætlanir stjórnvalda og rammar inn í framtíðina, s.s. byggðaáætlun og samgönguáætlun í formi þingsályktunar. Eins og tilgangi fjölmiðlafrumvarpsins er lýst hefði í raun verið miklu eðlilegra að þessi stefna meirihluta alþingis og rammi inn í framtíðina væri einfaldlega settur í þingsályktun, eins konar fjölmiðlaáætlun. Þá hefðu menn líka losnað við ýmis vandamál, s.s. að stilla forsetanum upp við vegg, að efna til ómælds pólitísks ófriðar, og að setja lög með það að yfirlýstu markmiði að breyta þeim áður en þau taka gildi. Þó stjórnskipan landsins sé óheppilegur vettvangur tilraunastarfsemi er brýnt að læra af niðurstöðunum. Líkt og Björn Bjarnason komst, með tilraun, að því að fylgst er með heimasíðu hans, þá leiða niðurstöður tilrauna í ljós að hin nýja "sáttaleið" ríkisstjórnarinnar er ekki að ganga upp.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun